29.02.2024

Litlu skrefin telja mest

Aðsend grein eftir Tómas Knútsson, stofnandi og framkvæmdarstjóri Bláa hersins

Þegar stórar ákvarðanir sækja á hugann og eldmóðurinn brýst fram fyrir tiltekið málefni, jafnvel í byltingarkenndu, þá er það ekkert öruggt að maður hafi hugsað það dæmi til enda. Ég var alveg viss um það þegar ég stökk í sjóinn og ætlaði að sýna umheiminum á hvaða villigötum við vorum gagnvart mengun hafsins og vanvirðingu okkar í þeim málum. Auðvitað komu fram aðilar sem töluðu um fifldirfsku og vissa geðveiki hjá manni að ætla að breyta þessum aldagamla málshætti að " Lengi tekur sjórinn við ". Þetta var árið 1995.


Nýkominn heim frá kennaranámi í sportköfun í Flórída hafði ég einsett mér að taka upp nýstárlega aðferð til að auka áhuga nemenda minna á sportköfun og bjóða þeim uppá frítt námskeið í faginu sem snérist um það að tína upp smárusl sem við sáum á hafsbotni sem ekki tilheyrði því umhverfi og hafði ratað " óvart " í hafið. Þessi óhefðbundna kennsluaðferð varð gríðarlega vinsæl meðal nemenda minna og nemendahópurinn kallaði sig Blái herinn, þeir voru hermenn hafsins að hreinsa upp rusl og drasl. Blái herinn eru fyrstu samtök á heimsvísu sem tileinkuðu sér það að hreinsa hafið.


 Til þess að ná til ráðamanna og þeirra sem mestan hag hafa af því að eiga hreint haf þurfti ákveðna herkænsku sem kalla má Litlu skrefin telja mest. Hún fólst í því að taka neðansjávar myndir af ósómanum sem þar var og að hreinsun lokinni skildi afraksturinn vigtaður og flokkaður sem best, járn fór sína leið, rafgeymar í spilliefnafarveg og netadræsur og slíkt í sinn farveg. Aðalatriðið var að halda bókhald utan um afrakstur fyrir hverja hreinsun. Þessum skilaboðum var komið til ráðamanna þjóðarinnar á hverju ári og er ennþá komið til þeirra sem þurfa að fá kynningu á málefninu.


 Eftir nokkrar mjög svo velheppnaðar hreinsunaraðgerðir í höfnum á Reykjanesi þar sem fjölmiðlar fengu að fylgjast með kom að ákveðinni úrslitastund. Haldið var ársþing allra hafnarstjóra á landinu þar sem undirritaður fékk að halda erindi um störf Bláa hersins.


 Sýndar voru myndir af hafsbotni, ruslahaugum fortíðarinnar og óskað eftir því að hafnasamlög landsins færu í vegferð sem gæti snúið þessum ósóma við. Þarna fæddist vegferð Landssambands Íslenskra Útvegsmanna " Hreint haf--Hagur Íslands ".


Hafnir landsins fóru í gegnum þann feril að taka á móti sorpi og því sem til féll frá skipum landsins og koma því í betri farveg í landi. Í dag eru þessi málefni í miklu betri farvegi hjá okkur Íslendingum og verður bara betri með hverju árinu sem líður.


Fyrstu fimm starfsár Bláa hersins fóru eingöngu í það að hreinsa upp rusl úr höfnum hér á Reykjanesinu, síðan byrjuðu fjöruhreinsanir í og við hafnirnar og á hafnarsvæðum. Allt hefur þetta verið tekið sem eitt lítið skref í einu, unnið hefur verið með öllum hagsmunaaðilum um að bæta og auka virðingu fyrir hreinleika hafsins. Annars lagið þarf að blása aðeins í fjölmiðlum til að vekja upp einhverja drauga en það gerist alltaf reglulega og skilar alltaf betri árangri sem samvinnuverkefni. Í dag er hægt að líta yfir farin veg og setja vegferðina í þann farveg að Litlu skrefin töldu mest vegna þess að þau komu alltaf í beinu framhaldi af skrefunum á undan sem tekin voru með yfirlögðu ráði og með samvinnu í huga við alla þá hagsmunaaðila sem eiga mest undir að eiga Hreint Haf og Land.


Á 28 árum hefur verið hreinsað upp yfir 1750 tonn af " óæskilegu hráefni " úr höfnum, fjörum og opnum svæðum á Íslandi, þessi verkefni eru vel yfir 600 á landsvísu og yfir 11 þúsund sjálfboðaliðar hafa lagt þessum verkefnum lið.


Blái herinn er stofnaðili að viðburðinum World Cleanup Day sem hlaut Sjálfbærnisverðlaun Sameinuðu Þjóðanna í hópefli árið 2023.

 

Með vinsemd og virðingu

Tómas J. Knútsson

stofnandi og framkvæmdarstjóri Bláa hersins


Share by: