7.09.2023

Kjölfestur áttu innihaldsríkt samtal á árlegum fundi

Kjölfestur Festu styðja sérstaklega við störf Festu á áratugi aðgerða 2020-2030 og efla þróun í átt að sjálfbæru atvinnulífi á Íslandi. Kjölfestuaðild felur í sér einnar milljón krónu framlag, til viðbótar við almennt árgjald.

Á hverju ári eiga forstjórar og tengiliðir Kjölfesta Festu innihaldsríkan, fróðlegan og skemmtilegan fund ásamt stjórn og starfsfólki Festu.


Kjölfestur Festu gegna veigamiklu leiðtogahlutverki í öllum störfum Festu  á Áratugi aðgerða 2020-2030. Kjölfestur Festu gera okkur kleift að sinna brýnum verkefnum af meiri slagkrafti en áður,  í þágu sjálfbærs atvinnulífs á Íslandi.


Kjölfestur Festu árið 2023 eru Arion Banki, Deloitte, KPMG, Landsvirkjun, Landsbankinn og Ölgerðin.


Fundurinn var haldinn í galleríi sem er hluti af Höfuðstöðinni (gömlu kartöflugeymslunum við Rafstöðvarveg) og er rými sem er táknrænt fyrir hlutverk og markmið Festu. Þetta er rými sem hefur oftar en einu sinni fengið nýjan tilgang frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar - það er hrátt, fagurt, óklárað og felur í sér ótal tækifæri fyrir bjartari framtíð, rétt eins og sjálfbærnivegferðin.

Við erum óendanlega þakklát fyrir stuðninginn, traustið og forystuna sem Kjölfestur sýna. Saman erum við sannarlega sterkari.

„Áhrif loftslagsbreytinga hafa komið skýrt í ljós á árinu og okkur má öllum vera ljóst mikilvægi þess að við færum okkur hratt yfir í sjálfbæra stjórnarhætti og viðskiptamódel, úr hákolefnahagkerfi yfir í lágkolefnahagkerfi, á þessum áratugi. Kjölfestur Festu á Áratugi Aðgerða skilja þetta mikilvægi og gera Festu kleift að setja ennþá meiri slagkraft í sjálfbærnivegferðina. Við erum þeim afar þakklát fyrir þetta frumkvæði og uppbyggilegu framtíðarsýn.“ - Hrund Gunnsteinsdóttir

Þegar Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar var spurður um ástæðu þess að Ölgerðin gerðist Kjölfesta sagði hann: „Við viljum vera fyrirmynd annarra fyrirtækja hvað varðar sjálfbærni. Við trúum því að með því að vinna markvisst að sjálfbærni höldum við hæfasta starfsfólkinu og löðum til okkar bestu umsækjendurnar. Þannig aukum við samkeppnisforskot okkar, minnkum áhættu í rekstri og erum eftirsóknarverðari fjárfestingarkostur.“ 👏

Share by: