20.02.2024

Fullt hús á Tengslafundi hjá Deloitte

 Metaðsókn var á Tengslafund Festu hjá Deloitte 15. febrúar þar sem sjálfbærniteymi fyrirtækisins deildi sinni einstöku reynslu og þekkingu á sjálfbærni, helstu reglugerðum, áskorunum og tækifærum.  Á fundinn voru mætt fulltrúar frá fyrirtækjum, opinberum stofnunum og ráðuneytum sem eru aðilar að Festu. Eins og vanalega, þegar svo fjölbreyttur hópur hittist til að ræða þessi stóru verkefni sem við erum að eiga við myndast áhugaverðar umræður.


Deloitte hefur verið aðildarfélag Festu í yfir áratug, er ein af Kjölfestum Festu og í hópi loftslagsleiðtoga Festu. Alþjóðleg WorldClimate stefna Deloitte um áhrif og aðgerðir í loftslagsmálum undirstrikar metnað fyrirtækisins þegar kemur að því að hafa góð áhrif á samfélag og umhverfi, bæði í sínum eigin rekstri með minni kolefnislosun, grænni rekstri og eflingu starfsfólksins og í gegnum áhrif sem þau hafa á viðskiptavini sína sem þau hvetja og styðja til aðgerða í sjálfbærnimálum.


Nokkrir punktar frá fundinum:


  • Það er stutt síðan allar þessar sjálfbærnireglugerðir voru „á leiðinni“. Nú er komið að innleiðingu þeirra, sem mun væntanlega skila enn frekari samþættingu kjarnareksturs fyrirtækja við sjálfbærni. Þá er skilningur á málefninu að verða sífellt betri meðal æðstu stjórnenda. Eins og alltaf vinna sjálfbærnisérfræðingar fyrirtækjanna krefjandi verkefni með metnaði.


  • Eitt dæmi um birtingarmynd á þessari þróun er að farið verður frá því að ársreikningur og sjálfbærniskýrsla séu aðskildar skýrslur í að vera gefið út sem eitt og sama rit.


  • Á þetta verður ekki nógu oft minnst: árangur fæst með því að snúa „kvöðinni“ sem felst í sjálfbærnivinnu í tækifæri; samkeppnisforskot, virðiskeðjan, fjármálakerfið, mannauður, yngri kynslóðir og takmarkaðar auðlindir og vaxandi áhrif loftslagsbreytinga.


  • Reynsla sjálfbærniteymis Deloitte sýnir að frestun á reglugerðum á Íslandi þjónar ekki íslenskum fyrirtækjum. Kröfurnar munu koma og að hefja vinnuna tímanlega er lykillinn að árangri.


  • Þegar við metum árangur í sjálfbærni er erfitt að bera saman fyrirtæki sem starfa ekki í sama geira, allt er þetta háð rekstrinum og fjármálamarkaðir og umgjörð sjálfbærniupplýsingagjafar mun taka tillit til þess. Allt sem þú gerir skiptir máli.


  • Svo fengum við að heyra nýja myndlíkingu í stað maraþonhlaupsins: þetta er frekar eins og að fara Laugaveginn. Brekkan upp í Hrafntinnusker er brött, brösuleg og löng og við erum öll einhversstaðar þar. Restin af Laugaveginum er svo auðveldari, stórfenglegt útsýni og betur troðnar slóðir sem léttara er að feta.


Þorsteinn Kári Jónsson og Þorgerður María Þorbjarnardóttir
Share by: