7.03.2024

Einlæg stemning á Tengslafund hjá Isavia

Við erum sannarlega innblásin eftir að hafa heimsótt Isavia á Tengslafundi Festu 6. mars og heyrt í Sveinbirni Indriðasyni forstjóra og sjálfbærnisérfræðingum fyrirtækisins, Hrönn Ingólfsdóttur forstöðumanni stefnumótunar og sjálfbærni, Gunnlaugi Bjarka Snædal verkefnastjóra og Stefáni Kára Sveinbirnssyni verkefnastjóra. Sjálfbærnivinna Isavia er til fyrirmyndar; þar hefur verið unnið í áratug eftir sjálfbærnistefnu og sjálfbærni því fléttað inn í allan reksturinn. „Fjárhagsbókhaldið er sjálfbærnibókhaldið.“

Sjálfbærnistefna Isavia byggist á þremur stoðum sjálfbærni (fólk, jörð, hagsæld) en er þó skipt upp í fjóra þætti: lífsgæði, virðissköpun og svo fær umhverfisþátturinn tvo hluta: auðlindanýting og loftslagsmál, en það er til þess að draga loftslagsmálin sérstaklega fram þar sem minnkun kolefnisspors þarf sérstaka athygli.

Isavia er með metnaðarfull losunarmarkmið og hefur lokið stigi 4 af 6 í kolefnisvottunarkerfi
Airport Carbon Accreditation (ACA), verkefni á vegum alþjóðasamtaka flugvalla (ACI) 🛩 Þessu kerfi er gjarnan líkt við markmiðin og vinnuna sem felst í Science Based Targets initiative.

Isavia hefur markvisst unnið að því að búa til uppbyggilega menningu meðal starfsfólk og fylgist með árangrinum með sérstökum mælikvörðum. Forstjóri Isavia telur þetta vera lykillinn að árangri fyrirtækisins. Við fundum sannarlega fyrir þessu, en þetta var fyrsti Tengslafundurinn þar sem forstjóri tekur fundargesti í núvitundaræfingu í upphafi fundar. 

Við þökkum Isavia kærlega fyrir einlæga og fróðlega kynningu - og einnig aðildarfélögum Festu fyrir að mæta og taka þátt í innihaldsríkum umræðum.

Þorsteinn Kári Jónsson og Þorgerður María Þorbjarnardóttir
Share by: