Ávarp formanns og framkvæmdastjóra

Starfsár Festu 2024 hófst með krafmikilli Janúarráðstefnu þar sem fókus var settur á hugrekki leiðtoga til að taka af skarið í sjálfbærnimálum og mikilvægi þess að sýna seiglu frammi fyrir langtímamarkmiðum. Þjóðþekktir einstaklingar stigu á svið í vel heppnuðum nýjum dagskrárlið sem kallaðist Trúnó og ræddu opinskátt um það hvernig hraða megi sjálfbærnivegferð íslensks samfélags. Auk þess var fókusað á félagslegan þátt sjálfbærni og átti það eftir að vera ákveðið þema í áherslum Festu á árinu. 


Fjölbreytt flóra nýrra aðildarfélaga bættist við á árinu sem sýnir glöggt hve víða þræðir sjálfbærni liggja. Þeirra á meðal voru ÖBÍ og Vinnumálastofnun og héldu þessi tvö aðildarfélög sameiginlegan Tengslafund þar sem meðal annars inngildingarverkefnið UNNDIS var kynnt. Í verkefnastarfi Festu var lögð áhersla á að lyfta upp öllum þremur stoðum sjálfbærni og í því skyni var gengið til samstarfs við Landlæknisembættið um skipulagningu Velsældarþings sem haldið var í júní 2024. Í samstarfi við öflugan vinnuhóp frá aðildarfélögum Festu var þar að auki vinnu við gerð vegvísis um félagslega sjálfbærni hrint af stað. 


Til þess að árangur náist fyrir  framtíðarkynslóðir og náttúru, er mikilvægt að sjálfbærnistarf einangrist ekki í sílóum, hvort sem er innan fyrirtækja, stjórnvalda eða innan geira. Festa lagði því áherslu á að víkka út áhrifasvið sitt og opna á samtal við fleiri aðila hjá okkar aðildarfélögum. Staðið var fyrir sérstökum viðburði eingöngu fyrir stjórnir og framkvæmdastjórnir þar sem varpað var ljósi á nýjar kröfur sem gerðar eru til stjórna en jafnframt þau ótal tækifæri sem stjórnir geta gripið til hagsbóta fyrir framtíðartryggingu sinna fyrirtækja. Á Deiglufundi um menningu og stefnumótun var sjónum beint að því hvernig virkja megi breiðari hópa innan aðildarfélaga til þátttöku í sjálfbærnivegferðinni þar sem sérþekking hvers fagsviðs innan fyrirtækja er nýtt til fullnustu. Í samstarfi við Opna háskólann hjá HR var settur á fót Sjálfbærniskólinn sem bauð upp á veglegt stjórnendanámskeið um allar þrjár stoðir sjálfbærni voru kynntar af landsliði sjálfbærnisérfræðinga bæði úr fræðaheiminum og innan úr atvinnulífinu.  Markhópurinn var ekki síst sérfræðingar innan fyrirtækja sem  starfa ekki formlega eða beint að sjálfbærnimálum. 


Tengslanetið er eitt sterkasta tól Festu til að leysa hámarks kraft úr læðingi meðal aðildarfélaga. Tengslafundir Festu bera því gott vitni því þegar þátttakendur leyfa sér að tala af einlægni og hreinskilni næst fram einstakt andrúmsloft lærdóms og samstarfs. 


Á árinu var blásinn aukinn kraftur í verkefnið Loftslagsleiðtogar þar sem forstjórar lykilfyrirtækja í loftslagsmálum geta nýtt sér töfra tengslanetsins og fræðst um stöðu loftslagsmála sem mun móta þeirra umhverfi á næstu árum. 

Oft verða bestu samtölin í óformlegum aðstæðum og Festa kynnti því til sögunnar Náttúrunæringu á árinu þar sem Festufólk hittist til fræðslu, skrafs og göngu úti í náttúrunni og mætir svo endurhlaðið inn á skrifstofuna á nýjan leik. 

Það veitir virkilega innblástur að verða vitni að þeirri djúpu þekkinguog einlæga áhuga sem leynist meðal aðildarfélaga. Það er hlutverk Festu að leysa þennan kraft úr læðingi fyrir atvinnulíf, náttúru og samfélagið í heild. Það gerist aðeins með því frumkvæði, hugviti og einstöku hugarfari grósku sem aðildarfélögin koma með inn í samtökin. Við viljum þakka öllum okkar aðildarfélögum, starfsfólki, stjórn og öðrum samstarfsaðilum kærlega fyrir árangursríkt samstarf. Vegferðin er rétt að byrja og möguleikarnir eru endalausir. Eins og heiti Janúarráðstefnunnar 2024 benti á – Við skrifum mannkynssöguna! 

Til baka