Á árinu 2024 hóf Festa undirbúning að nýjum vegvísi um félagslega sjálfbærni fyrir fyrirtæki og stofnanir. Markmið vegvísisins var að draga fram helstu þætti félagslegrar sjálfbærni og veita aðildarfélögum og atvinnulífinu öllu samansafn af helstu upplýsingum og tólum til þess að vinna að þessari mikilvægu stoð sjálfbærninnar. Að vegvísinum komu fjöldi sérfræðinga og kann Festa þeim bestu þakkir. Þau eru Adriana Karolina Pétursdóttir, Alma Ýr Ingólfsdóttir, Aman Hasecic, Arnar Sveinn Harðarson, Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, Heiður Margrét Björnsdóttir, Helga Ögmundsdóttir, Herdís Sólborg Haraldsdóttir, Hildur Ólafsdóttir, Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, Ingunn Agnes Kro, Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, Sara Dögg Svanhildardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Þorgerður Einarsdóttir. Vegvísirinn var gefinn út í lok janúar 2025.
Samfélag
Vegvísir um félagslega sjálfbærni
Tengslafundur með ÖBÍ og VMST
Í september stóðu ÖBÍ réttindasamtök og Vinnumálastofnun (VMST) í samstarfi við Festu að sérstökum Tengslafundi fyrir aðildarfélög Festu um félagslega sjálfbærni. Fundurinn, sem haldinn var 11. september í Mannréttindahúsinu, var hluti af tengslafundaröð Festu þar sem aðildarfélög hittast mánaðarlega og miðla sinni reynslu. Að þessu sinni var sjónum beint að atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu og þeim breytingum á lögum um almannatryggingar sem eiga að stuðla að aukinni þátttöku þessa hóps. Þátttaka á fundinum var mjög góð og kom skýrt fram að mikið þarf að gera til að nýta þennan „falda fjársjóð“ betur á vinnumarkaði. Fundurinn undirstrikaði mikilvægi samstarfs stjórnvalda, hagsmunasamtaka og atvinnulífs um þennan félagslega þátt sjálfbærninnar.
Ungt fólk
Hamingjudagurinn
Festa tók þátt í Alþjóðlega hamingjudeginum 20. mars 2024, sem í þetta sinn helgaður var hamingju ungs fólks. Í samstarfi við Embætti landlæknis, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Háskóla Íslands var haldið málþing um hamingju og velsæld ungs fólks. Þar var sjónum beint að líðan ungmenna og hvernig megi efla velsæld þeirra. Þátttaka Festu fólst m.a. í því að miðla þekkingu um tengsl sjálfbærni og lífsgæða ungs fólks og velta upp spurningum um hvernig atvinnulífið geti stuðlað að hamingju komandi kynslóða. Ísabella Ósk Másdóttir, samskiptastjóri Festu, hélt þar erindi um ungt fólk og áherslur þeirra þegar kemur að vinnumarkaðinum.
Könnun meðal ungs fólks
Undir lok árs hófst undirbúningur að könnun á viðhorfum og stöðu ungs fólks gagnvart sjálfbærni. Festa átti þar í samstarfi við Deloitte og Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ). Markmiðið var að kortleggja hvernig yngri kynslóðir horfa á sjálfbærnimálin, hvaða væntingar þær geri til atvinnulífsins og stjórnvalda, og hvernig megi auka þátttöku ungs fólks. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar í upphafi árs 2025.


Heimsókn á Bessastaði
Katie Hodgetts, starfsfólk og stjórn Festu fengu boð að heimsækja forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson á Bessastaði í tengslum við Janúarráðstefnuna. Góðar umræður átt sér stað, m.a. um ungt fólk og loftslagsmál.

Ungmennaspjall með loftslagsaktívista
Festa hélt þann 24. janúar ungmennaspjall hjá Umhverfisstofnun með loftslagsaktívistanum Katie Hodgetts. Katie deildi persónulegri reynslu af kulnun í loftslagsbaráttu og kynnti The Resilience Project, sem styður ungt fólk gegn loftslagskvíða. Nokkur ungmennafélög á Íslandi áttu fulltrúa á viðburðinum. Nánar er fjallað um þennan viðburð í viðburðarkaflanum.

Velsældarþing
Alþjóðlegt Velsældarþing var haldið í annað sinn í Hörpu í júní. Festa, í samvinnu við Embætti landlæknis, skipulagði lið á þinginu sem snerist að hlutverki atvinnulífsins þegar kemur að því að efla velsæld í samfélaginu. Erlendir sérfræðinga og fulltrúar aðildarfélaga Festu sátu í panel á viðburðinum: Michael Weatherhead, meðstofnandi og þróunarstjóri Wellbeing Economy Alliance (WEAll), Victoria Hurth, sjálfstæður rannsakandi og fræðimaður hjá sjálfbærnileiðtogastofnun Cambridge háskóla, Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteinn, Eva Margrét Ævarsdóttir meðeigandi Lex lögmannstofu og Ægir Þórisson, forstjóri Advania.
Umsögn í Snjallræði
Í desember var Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, hluti af umsagnarhópi fyrir nýsköpunarhraðalinn Snjallræði, en uppskeruhátíð Snjallræðis fór fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í desember. Snjallræði er 16 vikna hraðall sem veitir stuðning til teyma sem hafa brennandi áhuga á að þróa lausnir við áskorunum samtímans og stuðla að markmiðum Sameinuðu þjóðanna. Lausnirnar geta meðal annars tengst heilbrigðisþjónustu, velferðartækni, menntakerfi eða jafnrétti. Snjallræði er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri.