Auratal: Hagnaður af sjálfbærni


Marel Áhugi fjár­festa eykst með sjálf­bær­um við­skipta­lausn­um

Grunnhugmyndin á bakvið Marel er að umbylta því hvernig matvæli eru unnin á heimsvísu, með það markmið að auka sjálfbærni, gæði, og hagkvæmni matvæla og tryggja öryggi og rekjanleika. Fyrirtækið er flestum kunnugt á Íslandi, ekki aðeins fyrir þróun á áður óséðum hátækni lausnum og hugbúnaði og sem einstakt dæmi um íslenskt hugvit heldur fyrir það að teljast fyrirmyndarfyrirtæki þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni. Það var því sérstaklega áhugavert að setjast niður með Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Marel á Íslandi og Þorsteini Kára Jónssyni, verkefnastjóra, sem er jafnframt einn helsti sérfræðingur Íslands í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, til að ræða ávinning af sjálfbærni og hvað Marel hefur sett á oddinn á undanförnum árum þegar kemur að því að mæla árangur þegar kemur að samfélagsábyrgð.

Guðbjörg Heiða og Þorsteinn Kári vinna náið saman að því að auka sjálfbærni hjá Marel á Íslandi.

„Besti mögulegi rekstur er að geta haft raunveruleg áhrif í samfélaginu. Þegar þú ert að takast á við raunveruleg vandamál og getur breytt því hvernig þau eru tækluð, það er og verður besta viðskiptatækifæri sem þú getur fengið,“ segir Þorsteinn Kári og setur þar með tóninn fyrir spjallið. Marel lítur ekki á samfélagslega ábyrgð sem aðskilinn hluta starfseminnar heldur hefur frá upphafi markmiðið um sjálfbærni verið grundvallaratriði í sýn fyrirtækisins á sitt hlutverk í samfélaginu.

„Við erum að auka nýtingu, gæði, öryggi, og rekjanleika matvæla og sjálfvirknivæða umhverfið í matvælavinnslu. Það er í rauninni grunnurinn að sjálfbærni í matvælavinnslu. Eins og kom fram um daginn á fjárfestakynningu þá er það svo að vöxtur og fjárhagslegur ávinningur og það að vera sjálfbær fer saman. Þannig er það fyrir okkur,“ bætir Guðbjörg Heiða við. Þau nefna sem dæmi að síðan fyrsta vara Marel, rafeindavogir á sjó sem gat vigtað nákvæmt í brotasjó og safnað gögnum um þyngd afla í miðlægt kerfi, kom á markað hafi bylting orðið í því hvernig sjávaraflinn er nýttur. Þessi markvissa starfsemi Marel frá upphafi og annarra fyrirtækja í sjávarútvegi hefur minnkað matarsóun í sjávarútvegi. Þorsteinn dregur upp mynd af súluriti með tölum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) þar sem sést greinilega að fiskur er sú matvara sem er minnst er sóað að meðaltali, ekki aðeins í Evrópu heldur þvert á heimsálfur.

Annað áhugavert verkefni sem Marel vinnur að um þessar mundir er að geta reiknað kolefnisfótsporið af lausnum þannig að í kjölfarið verði hægt auðvelda viðskiptavinum að skilja og jafnvel kolefnisjafna áhrifin af starfsemi þeirra út líftíma vélanna. Þetta á eftir að auðvelda fyrirtækjum sem kaupa af þeim vélar að safna nauðsynlegum gögnum til þess að gefa út nákvæma skýrslu um umhverfisáhrif fyrirtækisins. „Það að þegar viðskiptavinurinn kaupir af okkur, okkar samstarfsaðili, þá getum við sagt hvert kolefnisfótsporið er yfir líftíma lausnarinnar. Þau Guðbjörg hafa fundið fyrir því að áhersla á vistvænar viðskiptalausnir eykur áhuga fjárfesta og viðskiptavina á viðskiptum við Marel.

„Þegar margir af okkar viðskiptavinum, eru að horfa á hverjum þeir vilja kaupa lausnir af, þá eru þeir farnir að skoða sjálfbærni sem hluta af heildarmyndinni.“

Guðbjörg nefnir nærtækt dæmi en nýlega hóf Marel samstarf við heildsöluna Costco í Bandaríkjunum sem grundvallaðist alfarið á því að þær hátæknilausnir sem Marel býður upp á stuðla að minni sóun, lægra kolefnisspori og hámarks nýtingu afurða. Verkefnið sem um ræðir er tímamóta hátækniverksmiðja í Nebraska í Bandaríkjunum til kjúklingavinnslu en afkastageta vinnslunnar er 2 milljónir kjúklinga á viku. Vinnslan er fullbúin hátæknilausnum og hugbúnaði frá Marel sem ná yfir allt vinnsluferlið, frá lifandi fugli til neysluvöru. Öll sóun er gríðarlega kostnaðarsöm fyrir fyrirtæki, ekki síst þegar um ræðir umfangsmikla starfssemi. „Það felast því mikil tækifæri að vinna í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar í að besta hvert einasta ferli við matvælavinnslu til þess að hámarka nýtingu verðmætra hráefna – það er sameiginlegir hagsmunir okkar, viðskiptavina, neytenda, fjárfesta og samfélagsins,“ segir Guðbjörg.

Stefna fyrirtækisins er að auka enn frekar þátt svokallaðrar sjálfbærrar vöruþróunar en í dag er það svo að með öllum hugmyndum í vöruþróun hjá Marel skuli fylgja upplýsingar um hvernig varan kemur til með að hafa áhrif á samfélagið og umhverfið. „Til dæmis þegar þú ert að hanna verksmiðjuna, þá lítum við til þess hversu mikið vatn þarftu til að þrífa hana, hversu mikla orku þarftu til að keyra verksmiðjuna, þarna eru fullt af þáttum sem við getum haft áhrif á í okkar vöruþróun sem að hafa svo áhrif á kolefnisfótspor yfir líftíma tækis,“ útskýrir Guðbjörg en bætir við að umræðan varðandi líftíma tækis sé skammt á veg komin og þar þurfi að skilgreina alþjóðlega staðla.

Auk þessara grundvallaratriða í starfsemi fyrirtækisins hefur Marel unnið markvisst að því að því að taka stefnu sína í samfélagslegri ábyrgð föstum tökum. Heildstæð stefna var birt 2015 en hún byggir á ESG eða UFS leiðbeiningunum Kauphallarinnar og tekur til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta. „Við erum ekkert að finna upp hjólið þar, við erum bara að taka þá stefnu og dýpka hana fyrir okkur,“ segir Guðbjörg og bætir við að skilningurinn á þýðingu hugtaksins samfélagsleg ábyrgð sé sífellt að verða meiri.

„Þegar skilningurinn dýpkar verða tækifærin enn fleiri.“

Þorsteinn bætir við það sé eitt að fyrirtækið hafi góð áhrif á umhverfið og samfélagið en „hitt er að kafa dýpra, líta inná við og sjá hvar við stöndum og hvernig við getum markvisst unnið í því að bæta okkur.“ Hann segir mælingar og alþjóðleg viðmið mikilvæg þegar kemur að sjálfbærni í einkageiranum, fyrirtæki geta þá borið árangur sinn saman, bæði innanhúss á milli ára og sín á milli.

Þannig sé það orðin skylda fyrir fyrirtæki af ákveðinni stærð að safna gögnum um áhrif sín á samfélagið og gefa út ESG skýrslu. Annars hafi Ríkisskattstjóri heimild til þess að neita að taka við ársreikningi fyrirtækisins. „Það er eitt, annað er að fyrirtæki skráð á markað erlendis eiga að uppfylla Evróputilskipunina um ófjárhagslegar upplýsingar.“ Hann sér fyrir sér að á næstu árum muni regluverk og lagalegar kröfur í kringum samfélagslega ábyrgð fyrirtækja aukast, því sé hagur í því fyrir fyrirtækið að hafa hafið mælingar snemma. „Þá er þetta ekki bara spurning um kostnað eða fjárhagslegan ávinning heldur bara að gera það sem þú þarft að gera til að starfa í samræmi við reglur. Uppfylla lágmarkskröfur til þess að geta rekið fyrirtæki,“ segir Þorsteinn. „Það þarf að ríkja jafnvægi á milli þessa, við lítum á samfélagslega ábyrgð sem viðskiptatækifæri í mörgu; talandi við hluthafana, talandi við tilvonandi hluthafa, talandi við viðskiptavinina okkar. Mikilvægi samfélagslegar ábyrgðar í starfssemi Marel er ekki síður það sem fyllir starfsfólkið, sem telur í dag yfir 6.000 manns í yfir 30 löndum, af stolti og veitir okkur innblástur við að takast á við verkefnið að umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu. En síðan er þetta bara þannig að þú verður að uppfylla ákveðin skilyrði líka.“

Ávinningur af samfélagslegri ábyrgð Marel birtist að auki með ýmsum hætti sem ómögulegt er að meta til fjár. „Við erum að mæla alls kyns hluti hjá okkur en ég veit að oft eru séu það óáþreifanlegu þættirnir sem hafa mikið virði,“ segir Guðbjörg. „Til dæmis; Marel er stórt fyrirtæki á Íslandi sem hefur náð miklum árangri. Rétt eins og Björk og Sigurrós kynntu Ísland sem tónlistarþjóð þá hafa fyrirtæki eins og Marel og Össur sýnt fram á að við séum hugvitsþjóð. Samfélagslegur ávinningur af slíku? Ég veit ekki hvernig er hægt að setja það í fé en ég held að hann sé rosalega mikill – að hafa fyrirmynd í samfélaginu þínu.“ Þá nefnir hún að ómögulegt sé að meta til fjár hvernig sú þekking sem leynist innanhúss, til dæmis í vöruþróun og rekstri á fyrirtæki sem selur vörur um allan heim, nýtist til uppbyggingar í samfélaginu. Marel reynir í hvívetna að taka þátt í nýsköpunarkeppnum til þess að miðla verkfræðiþekkingu og þau Guðbjörg og Þorsteinn sitja í fjölda viðskiptanefnda þar sem þekking þeirra á kerfum, ferlum og stefnum nýtist öðrum fyrirtækjum. Þá nefna þau að helgun starfsmanna í starfi aukist þegar fólk finnur fyrir tilgangi með starfinu sínu.

Jafnvel þó Guðbjörg og Þorsteinn fari ekki varhluta af mikilvægi þess að leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð taka þau fram að ekki megi afmarka hana um of heldur sé hugtakið samofið tilgangi fyrirtækja. Sú umræða sé sífellt að þroskast. „Þetta er hluti af því hvernig heimurinn er að læra að reka fyrirtæki betur“ segir Þorsteinn.

„Það eru gríðarleg tækifæri til staðar í dag til þess að breyta hlutunum til hins betra,“ segir Guðbjörg Heiða.

„En til þess þurfum við að þora, ráða til okkar fólk sem þorir að hugsa öðruvísi og innleiða nýjar aðferðir og sýna hugrekki.“




Share by: