Viðburðir

Janúarráðstefna Festu 2024 – „Við skrifum mannkynssöguna“ (25. janúar) 

 

Stærsti sjálfbærniviðburður ársins og aðalráðstefna Festu. Yfirskriftin vísar til þeirra tímamóta sem mannkynið stendur á í sjálfbærnimálum. Á ráðstefnunni voru innlendir og erlendir fyrirlesarar sem eru leiðtogar á sínu sviði. Í fyrsta sinn var sérstök áhersla lögð á félagslega sjálfbærni á Janúarráðstefnunni, með því að draga fram tækifærin sem felast í félagslegum þáttum sjálfbærninnar. Einnig var kastljósinu beint að kjarkmiklum leiðtogum í sjálfbærni – fólki sem þorir að fara ótroðnar slóðir og draga aðra með. Ráðstefnan var vel sótt, fullt var út úr dyrum eins og oft áður, enda hefur selst upp á Janúarráðstefnuna síðustu ár. Aðalfyrirlesarar 2024 voru meðal annarra Sandrine Dixson-Declève (forseti Rómarklúbbsins) og Halla Tómasdóttir (þáverandi forstjóri B Team, núverandi forseti Íslands), auk fjölda annarra sérfræðinga, frumkvöðla og áhrifafólks. Ráðstefnan var haldin í Hörpu og tókst með eindæmum vel; dagskránni lauk með móttöku og léttu spjalli gesta undir tónlist – enda vill Festa að þessi viðburður sé bæði fræðandi og skemmtilegur.  

 

Ungmennaspjall með Katie Hodgetts (24. janúar) 

 

Í tengslum við Janúarráðstefnuna stóð Festa fyrir sérstökum fundi fyrir ungt fólk með Katie Hodgetts, sem var einn af fyrirlesurum ráðstefnunnar. Hodgetts er þekktur loftslagsaktívisti og stofnandi The Resilience Project, sem beinir sjónum að geðheilbrigði ungra aðgerðarsinna. Á viðburðinum, sem haldinn var hjá Umhverfisstofnun, sagði Katie frá baráttu sinni í loftslagsmálum og hvernig kulnun í starfi leiddi hana að því að stofna verkefni sem styður ungt fólk gegn loftslagskvíða. Fulltrúar ungmennahópa (Ungir umhverfissinnar, ungmennaráð UNICEF o.fl.) og ungir starfsmenn aðildarfélaga Festu sóttu viðburðinn. Fundurinn var í senn fræðandi og hvetjandi, en Katie deildi þar persónulegri sögu sinni og lagði áherslu á þrautseigju og samstöðu. Ungmennaspjallið var liður í því að Festa tengi ungt fólk betur við starfsemina og hlusti á þeirra raddir. 


Hringborð sjálfbærnileiðtoga (26. janúar) 

 

Í tengslum við Janúarráðstefnuna skipulagði Festa hringborð fyrir sjálfbærnileiðtoga úr íslensku samfélagi. Þar komu saman ráðherra,  leiðtogar og lykilstjórnendur víða að sem hafa verið ötulir í sjálfbærnimálum. Tilgangurinn var að þeir gætu rætt saman óformlega og af einlægni um áskoranir og tækifæri sem þeir sjá framundan. Þessi lokaði viðburður var haldinn í kjölfar Janúarráðstefnunnar. Þátttakendur tóku undir að samtal milli leiðtoga í ólíkum greinum væri lykill að hraðari framgangi í sjálfbærnimálum 


Tengslafundir 

 

Tengslafundir hafa verið hluti af starfi Festu allt frá upphafi. Þar býður eitt aðildarfélag hinum heim í morgunkaffi þar sem skipst er á ráðum og reynslusögum. 

 

Á árinu voru haldnir átta tengslafundir. Í febrúar bauð Deloitte til Tengslafundar þar sem fjallað var um samþættingu sjálfbærnimarkmiða í ráðgjöf og greiningu. Í mars tók Isavia á móti gestum og kynnti aðgerðir sínar til að draga úr kolefnisspori . Í maí stóð Controlant fyrir fundi um sjálfbærni í aðfangakeðjum og gagnaöflun, og í júní hélt ÁTVR fund þar sem rætt var um ábyrgð í áfengissölu og umhverfisáhrif rekstrar. Í september var sameiginlegur tengslafundur með ÖBÍ og Vinnumálastofnun um félagslega þátttöku og sjálfbærni á vinnumarkaði, og í október buðu Össur/Embla Medical til fundar um sjálfbæra hönnun og framleiðslu heilbrigðislausna. Í nóvember hélt KPMG Tengslafund um sjálfbærniupplýsingagjöf og árinu var svo lokað með tengslafundi hjá COWI í desember þar sem fjallað var um sjálfbærni í mannvirkjagerð og innviðum. Alls mættu 341 manns frá aðildarfélögum á Tengslafundi á árinu. 

Deiglufundir 

 

Festa hélt sex hnitmiðaða en jafnframt innihaldsríka Deiglufundi á árinu þar sem lögð var áhersla á aðkallandi lykilþætti í sjálfbærni í rekstri. Í febrúar var Deiglufundur um tvöfalda mikilvægisgreiningu þar sem þátttakendur lærðu að forgangsraða sjálfbærnimálum eftir áhrifum og áhættu. Í apríl beindist umræðan að stefnumótun og samskiptum með áherslu á uppbyggingu sjálfbærnimenningar innan fyrirtækja. Í maí var fjallað um hringrásarhagkerfið í rekstri og komandi tækifæri á því sviði. Í september var deiglufundur um Science Based Targets, vísindaleg loftslagsmarkmið, í október um sjálfbærnivottanir og staðla þeirra, og í nóvember um virðiskeðju og umfang 3-losun þar sem ræddar voru aðferðir til að kortleggja og minnka óbeina losun. Alls mættu 433 manns frá aðildarfélögum á Deiglufundi á árinu.  

Velsældarþing


Alþjóðlegt Velsældarþing var haldið í annað sinn í Hörpu í júní. Festa, í samvinnu við Embætti landlæknis, skipulagði lið á þinginu sem snerist að hlutverki atvinnulífsins þegar kemur að því að efla velsæld í samfélaginu. Erlendir sérfræðinga og fulltrúar aðildarfélaga Festu sátu í panel á viðburðinum: Michael Weatherhead, meðstofnandi og þróunarstjóri Wellbeing Economy Alliance (WEAll), Victoria Hurth, sjálfstæður rannsakandi og fræðimaður hjá sjálfbærnileiðtogastofnun Cambridge háskóla, Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteinn, Eva Margrét Ævarsdóttir meðeigandi Lex lögmannstofu og Ægir Þórisson, forstjóri Advania. 

Sjálfbærar fjárfestingar (14. maí)


Sem hluti af Íslensku nýsköpunarvikunni 2024 (Innovation Week) skipulagði Festa ásamt Sjávarklasanum viðburð um sjálfbærar fjárfestingar. Þar komu saman fjárfestar, sprotafyrirtæki og önnur fyrirtæki til að ræða hvernig fjárfestingarfé getur drifið sjálfbæra uppbyggingu. Lögð var áherslaá að sjálfbærnivegferð fyrirtækja skili ávinningi til lengri tíma, bæði í rekstri og í viðskiptatækifærum, og að fjármagnseigendur hafi mikilvægu hlutverki að gegna með því að beina fjármunum í verkefni sem stuðla að jákvæðum samfélags- og umhverfisáhrifum. Þessi viðburður tengir hagsældarhugsjónir Festu beint við fjármálageirann og sýnir hvernig ábyrg fjárfesting er hluti af sjálfbærninni. 

Náttúrunæring (30. ágúst) 

 

Í upphafi hausts 2024 skipulagði Festa „LabbRabb“ – léttan göngutúr við Vífilstaðavatn með leiðsögn landvarðar og óformlegu spjalli meðal aðildarfélaga Festu. Markmiðið var að bjóða nýjum sem eldri meðlimum tækifæri til að kynnast, deila hugmyndum og spegla sig í sameiginlegum áskorunum á virkum og nærandi vettvangi. Eftir gönguna hittust þátttakendur á veitingarstað þar sem samræður héldu áfram yfir hádegismat. Viðburðurinn styrkti tengslanet Festu og undirstrikaði mikilvægi þess fyrir samstarf og nýsköpun. að eiga létt og óformlegt samtal  

Málþing fyrir stjórnir og framkvæmdastjórnir (8. nóvember)


Í nóvember stóð Festa í fyrsta sinn fyrir sérstöku málþingi fyrir stjórnir og framkvæmdastjórnir aðildarfélaga undir heitinu Framsæknar stjórnir – arðsemi, ábyrgð og áhrif. Málþingið fór fram á Grand Hótel 8. nóvember, undir stjórn Arnars Mássonar, og leituðu stjórnendur margra félaga þangað til að hlýða á leiðandi sérfræðinga. Elva Rakel Jónsdóttir greindi áhrif umhverfis- og alþjóðamála á rekstrarumhverfið, Tómas N. Möller fór yfir sjálfbærnireglugerðir, Rakel Eva Sævarsdóttir kynnti þau tækifæri sem felast í sjálfbærni í rekstri, Ingunn Agnes Kro fór yfir tengsl sjálfbærni og skilvirkni og Ásthildur Otharsdóttir fjallaði um skipulag stjórna á sjálfbærnistarfi. Elín Jónsdóttir, Tómas Már Sigurðsson, Andri Þór Guðmundsson og Hrefna Sigfinnsdóttir tóku þátt í pallborði í lok málþingsins.  

Til baka