Auratal: Hagnaður af sjálfbærni


Vínbúðin Minni sóun og áhersla á um­hverf­is­vernd skil­ar fjár­hags­leg­um ávinn­ingi

„Samfélagsleg ábyrgð er í kjarna fyrirtækisins,” segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðarinnar. Hún og Sigurpáll Ingibergsson, gæðastjóri Vínbúðarinnar, hafa tröllatrú á mikilvægi þess að flétta sjálfbærnihugsun inn í alla starfsemi fyrirtækisins. „Já, stefnan er skýr; að vera eitt af fremstu þjónustufyrirtækjum landsins og að vera fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar,“ segir Sigurpáll. Þau hafa bæði unnið að því síðastliðin ár að setja mælikvarða á aðgerðir fyrirtækisins sem heyra undir samfélagslega ábyrgð að alþjóðlegri fyrirmynd en ÁTVR gefur út sjálfbærniskýrslu sem uppfyllir GRI (Global Reporting Initiative).

Sigurpáll og Sigrún Ósk, gæðastjóri og aðstoðarforstjóri Vínbúðarinnar, hafa starfað samkvæmt gildum samfélagslegrar ábyrgðar í fjölda ára.

Fyrst er talað um samfélagslega ábyrgð í stefnu Vínbúðarinnar árið 2001 en það hefur verið markmið Vínbúðarinnar frá stofnun að starfa samfélaginu til heilla. Þetta er meðal annars vegna eðlis starfseminnar en eins og flestum er kunnugt hefur ríkið einkasölu á áfengi með höndum vegna lýðheilsusjónarmiða. Því er sérstök áskorun að meta fjárhagslegan ávinning af aðgerðum Vínbúðarinnar þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð.

„Ég hef stundum sagt að þetta geti verið allt frá 5000 krónum og upp úr ,“ útskýrir Sigurpáll. Hann vísar í rannsókn frá Svíþjóð um afleiðingar afnáms á einkasölu ríkisins af áfengissölu þar sem niðurstöðurnar voru á þann veg að neysla á áfengi myndi aukast um 20 til 30 prósent per íbúa og að kostnaður fyrir samfélagið vegna aukinnar neyslu myndi hækka í kjölfarið. Í ljósi þessa hefur Vínbúðin lagt sig í líma við að starfa í sátt við samfélagið og grunnurinn að þessu hefur verið að veita framúrskarandi þjónustu og vera mjög meðvituð samfélagslegt hlutverk sitt. Þetta kemur fram í ársskýrslu ÁTVR þar sem samfélagsleg ábyrgð er í forgrunni.

„Okkur finnst þetta vera ein heild, þú getir ekki horft á þjónustu og ekki horft á samfélagslega ábyrgð.“

Þetta segir Sigrún Ósk og bætir við að vel sé hugsað um mannauð fyrirtækisins, vinnustaðurinn einbeiti sér að heilsueflandi aðgerðum fyrir starfsfólk og það sé ein birtingarmynd samfélagslegrar ábyrgðar. Fjarvistir vegna veikinda sem hlutfall af unnum klukkustundum eru aðeins 2,4 prósent hjá Vínbúðinni eins og fram kemur í sjálfbærnitöflu í samfélagsskýrslu. „Til þess að veita góða þjónustu þarftu að hafa ánægt starfsfólk og starfsánægjan hefur verið vaxandi síðustu ár,“ bætir Sigurpáll við og segir að þættir eins og jafnréttismál, til að mynda jöfn laun og annað, hafi mikil áhrif á starfsánægju fyrirtækisins. Þetta eru atriði sem heyra undir félagslega starfshætti fyrirtækisins samkvæmt ESG viðmiðum Kauphallarinnar og tengist að auki Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Þótt ÁTVR sé stofnun er reksturinn mun líkari hefðbundnum fyrirtækjarekstri en almennt gerist um stofnanir ríkisins. Hvar svo sem einstaklingar standa í umræðunni um einkasölu á áfengi kemur fjárhagslegur ávinningur af samfélagslegri ábyrgð fram með ýmsum hætti í starfseminni. Sigrún Ósk segir Vínbúðina þó ekki mæla hann með formlegum hætti. „Samfélagsleg ábyrgð skiptir gríðarlegu máli varðandi orðsporið,“ segir Sigrún Ósk. Mikilvægt sé að nota gleraugu samfélagslegrar ábyrgðar við ákvarðanatöku hvort sem um er að ræða jafnrétti eða umgengni um verðmæti. Ella sé hætta á að orðspor fyrirtækis bíði hnekki.

Þau nefna nokkur dæmi um tilfelli þess að áhersla á umhverfisvernd hafi haft fjárhagslegan ábata en að sá ávinningur hafi alltaf komið í kjölfarið á þeirri ákvörðun að fara vel með verðmæti. „Ef þú ferð að reikna allt og ætlar ekki að taka ákvörðun um neitt nema ef það skilar þér fjárhagslegum ávinningi þá er meiri hætta á að þú gerir ekki neitt,“ segir Sigrún Ósk og útskýrir að þegar Vínbúðin fór að flokka og endurvinna hjá sér hafi förgun á úrgangi ekki kostað jafnmikið og í dag. Nú fái þau aftur á móti greiddar þrjár milljónir króna fyrir flokkun sem væri ella kostnaður upp á fimm milljónir hefðu þau aldrei tekið upp á því að flokka. Vínbúðin er með eitt hæsta endurvinnsluhlutfall fyrirtækja á landinu, eða 93 prósent, og markmiðið er á endanum að endurvinna 98 prósent af úrgangi frá starfseminni.

„Við höfum verið að horfa á það hvað við getum gert vel. Ef á einhverjum tímapunkti það kemur svo í ljós að það er fjárhagslega hagkvæmt þá er það bónusinn.“

Sigurpáll nefnir annað dæmi þar sem sama var upp á teningunum. „Rýrnunarmælingar byrja á síðustu öld þannig að áhersla á minni sóun; að mælingar og að allir ferlar taki mið af nýtingu verðmæta, byrja þar í raun áður en orðið samfélagsleg ábyrgð kemur fram,“ útskýrir Sigurpáll. „Óskýrð rýrnun hjá okkur er í dag 0,03 prósent en sú rýrnun er hjá fyrirtækjum í heiminum að meðaltali 1,33 prósent. Ef rýrnun hér væri 1,33 prósent þá væri það tap um hálfan milljarð króna.“ Önnur dæmi sem þau nefna er innleiðing á kerfi fyrir rafræna reikninga og ákvörðun um að hætta að nota einnota drykkjarmál. Áhersla á rafræna reikninga hefur skilað sér í minni pappírs og póstburðargjöldum en á móti kemur þó að kerfið sjálft og viðhald kosti sitt. Þar séu umhverfisáhrifin af minni pappírsnotkun mesti ávinningurinn. Hins vegar hafi minni notkun pappa- og plastmála borið fjárhagslegan ávinning.

„Pappamál fylgdu upphaflega alltaf með innkaupum á kaffi,“ útskýrir Sigrún Ósk „En svo eitt árið tók þjónustuaðilinn að rukka fyrir þau og því rauk mælikvarðinn á kaupum á einnota umbúðum í græna bókhaldinu upp. Við sýndum starfsfólki þessa tölu og það hvatti eindregið til þess að við hættum kaupum á þessum málum. Við gerðum það, samdægurs, og það er sambærileg upphæð sem við spöruðum á kaupum á einnota umbúðum og það sem við greiddum fyrir kolefnisjöfnun það árið.“

Þetta dæmi sýnir svart á hvítu hversu mikilvægt það er fyrir fyrirtæki að halda utan um mælingar á umhverfisáhrifum sínum. „Það er grunnurinn að vita í hvað peningarnir eru að fara og grænt bókhald eykur rosalega meðvitund. Við höfum verið með grænt bókhald hér í mörg ár og allar mælingar almennt eru gríðarlega mikilvægar eins og við erum að gera markvisst í samfélagsskýrslunni. Þær ljúga ekki mælingarnar,“ segir Sigrún Ósk. Jafnframt benda þau á að allar mælingar hjálpi fyrirtækjum að ákveða sínar áherslur í sjálfbærnimálum, það sé kostnaður að fara í lífsferilsgreiningar og mat á eigin starfsemi en ávinningur, fjárhagslegur og ófjárhagslegur, sé fólginn í því að stunda markvissar aðgerðir.


Fjárhagslegur ávinningur af samfélagslegri ábyrgð er sem fyrr segir á engan hátt meginhvatinn til aðgerða hjá Vínbúðinni.


„Drifkrafturinn þarf að vera hugsjónin en fjárhagslegi ávinningurinn er bónusinn,“ segir Sigrún Ósk og bætir við að bæði fyrirtæki og einstaklingar þurfi að velta fyrir sér hvernig þeir ætli að haga sinni þátttöku í samfélaginu. „Stundum kostar það að vera samfélagslega ábyrgur. Mér finnst maður ekki getað tekið ákvörðun byggða eingöngu á x krónum inn eða út. Stundum þarftu að segja; ég er tilbúin til að borga meira fyrir að vera samfélagslega ábyrgur. Það er bara ákvörðun sem maður tekur.“

Share by: