29.01.2024

Janúarráðstefna Festu heppnaðist vel þrátt fyrir rafmagnsleysi

Uppselt var á Janúarráðstefnu Festu 2024. Ráðstefnan heppnaðist vonum framar, þrátt fyrir að rafmagni hafi slegið út í lok ráðstefnu. Sjá frétt mbl.


„Við skrifum mannkynssöguna” var yfirskrift ráðstefnunnar. Hvað verður skrifað í sögubækur framtíðarinnar þegar aðgerðir eða aðgerðarleysi okkar kynslóða verða til umfjöllunar? Við erum vongóð, enda sjáum við sem hrærumst í sjálfbærniheiminum hugrökk skref tekin hvern einasta dag í þágu jarðar og samfélags. 


Við þurfum samt enn fleiri kjarkmikla leiðtoga til þess að taka þessi umbreytingarskref og taka erfiðar ákvarðanir sem gætu mætt mótstöðu, en það var eitt þema ráðstefnunnar. Eins og Halla Tómasdóttir sagði:


„Fólk sem getur hugsað heilsteypt, nær að tengja hlutina saman og nær að skilja hlutverk stjórnvalda, viðskiptalífsins og almennra borgara. Það er það fólk sem er að verða það afl sem við þurfum til að knýja fram þessar miklu breytingar, miklu frekar en sérfræðingar sem eiga það til að festast í þröngri sýn á þetta stóra umbreytingarverkefni sem blasir við.”


Velsæld og seigla fólks var einnig þema ráðstefnunnar, eða félagslegi þáttur sjálfbærninnar. Við fengum alþjóðlegan umbreytingarleiðtoga, Sandrine Dixson-Declève, til þess að fjalla um sínar framsýnu hugmyndir um hvernig við þurfum að forgangsraða grunnþörfum og heilsu fólks, jafnrétti, velferð og samfélagslegri sátt fram yfir efnahagslegan gróða. Þessar breytur þurfum við huga að þegar við hugsum um markmið og árangur í sjálfbærnimálum.


Við fórum líka inn á við þegar kemur að okkar persónulegu þrautseigju, sem er nátengd seiglu samfélaga. Þar á meðal talaði Katie Hodgetts, leiðtogi sem styður við útbrunna unga loftslagsaktívista og Andri Guðmundsson meðstofnandi VAXA, sem talaði um persónulega seiglu í sjálfbærnivegferðinni og hvernig við höldum út þessar stóru áskoranir út.


Takk öll sem tókuð þátt með okkur eða studduð við okkur á einn eða annan hátt; fólk í dagskrá, Húsasmiðjan, Play, Íslandshótel, Harpa tónlistarhús, Discover Truenorth, Langbrók, Einar Thoroddsen listamaður, DJ Sigrún Skafta, Ernir Eyjólfsson ljósmyndari og fleiri! Þið vitið hver þið eruð. 



Þorsteinn Kári Jónsson og Þorgerður María Þorbjarnardóttir
Share by: