12.10.2024

Bláa Lónið bauð á Tengslafund

„Ef fyrirtækið mitt vex, mun það vera betra eða verra fyrir samfélagið og náttúruna?“


Þetta er spurning sem stjórnendur Bláa Lónsins spurðu sig að þegar þau fóru í gegnum B Corp vottunarferlið, en fyrirtækið fékk vottunina staðfesta nú á dögunum. Spurningin kjarnar tilgang B Corp, en markmið þeirra er að breyta viðskiptaháttum á heimsvísu. Tilgangurinn byggist á því að öll fyrirtæki ættu að mæla og meta þau áhrif sem þau hafa, t.d. á umhverfi, einstaklinga og samfélög til jafns við fjárhagslegan gróða.


Um þetta og fleira sjálfbærnitengt fengu aðildarfélög Festu að heyra á Tengslafundi hjá Bláa Lóninu í mánuðinum, frá þeim Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra sölu-, markaðs- og vöruþróunarsviðs og Fannari Jónssyni, gæða- og umhverfisstjóra.


Flest þekkja sögu Bláa Lónsins en tengja hana þó ekki við hringrásarhagkerfið. Lónið myndast út frá jarðvarmavirkjuninni í Svartsengi sem var sett á fót á áttunda áratuginum og skilaði afar kísilríku affalsvatni eða jarðsjó. Þegar jarðsjórinn kólnar aðskilur kísillinn sig og þéttir hraunið og því seitlast jarðsjórinn ekki ofan í hraunið. Þannig myndaðist Bláa Lónið. Út frá þessu affalli frá virkjuninni hefur skapast dýrmætt og eftirsótt vörumerki sem í raun og veru byggist á því að nýta það sem var “úrgangur” frá annarri starfsemi.


Annað dæmi um hringrás í rekstrinum er ræktun á örþörungum sem eru í jarðsjónum. Með umhverfisvænni tækni eru örþörungarnir fóðraðir á jarðvarmagasi sem er ríkt af koltvísýringi og kemur upp með jarðsjónum. Örþörungarnir binda þannig koltvísýring sem annars færi út í andrúmsloftið. Örþörungarnir eru síðan notaðir í nærandi húðvörur.


Með leiðarstefinu „Wellbeing for People and Planet“ hefur Bláa Lónið alla tíð lagt áherslu á sjálfbærni í rekstri og þessar áherslur skila sér í mælanlegum árangri. Fyrir utan fjölda vottana sem Bláa Lónið hefur hlotið, hefur kolefnislosun á hvern gest dregist saman um 38% á síðustu tveimur árum og notkun jarðefnaeldsneytis dregist saman um 30% frá árinu 2019. Plastspor í upplifun gesta hefur minnkað um 81% og endurvinnsluhlutfall jókst um 20% frá fyrra ári.


Við þökkum Bláa Lóninu og öllum þeim sem mættu kærlega fyrir frábæra samveru.

Share by: