“Heimurinn er að breytast og við þurfum að breytast með.”
Janúarráðstefna Festu á föstudaginn

Janúarráðstefna Festu fer fram í Silfurbergi Hörpu á föstudaginn, 30. janúar. Um er að ræða stærsta árlega viðburð landsins sem snýr að sjálfbærnimálum. Þema ráðstefnunnar í ár er ,Umbreyting er ákvörðun, sem er sérstaklega aðkallandi vegna stöðu alþjóðamála sem felst meðal annars í geópólitískri óvissu, áhrifum loftslagsbreytinga, örri tækniþróun og samfélagslegum áskorunum sem kalla á raunhæfar og markvissar leiðir til umbreytingar meðal fyrirtækja, stofnana og almennings.
„Heimurinn er að breytast og við þurfum að breytast með," segir Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastýra Festu. „Þegar óvissa í alþjóðamálum sameinast sviptingum á markaði og allt er borið fram á smörrebrauði loftslagsbreytinga þá getum við ekki leikið sama leikinn og haldið að áhrifin verði óbreytt. Við þurfum umbreytingu, því stöðnun virkar ekki,“ segir Elva.
Fjölbreytt dagskrá með alþjóðlegum og innlendum sérfræðingum
Janúarráðstefna Festu hefur verið haldin árlega síðan 2013 og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur og lifandi vettvangur fyrir samræður, nýja sýn og innblástur um sjálfbærni í atvinnulífi og samfélagi. Á Janúarráðstefnunni leiðir Festa saman íslenska og erlenda fræðimenn, frumkvöðla og skapandi hugsuði sem munu deila umbreytingarsögum úr ólíkum geirum atvinnulífsins. Dagskráin spannar meðal annars loftslagsvísindi, nýsköpun í atvinnulífi, matvælaframleiðslu, tækni, félagslega sjálfbærni, menningu, sögu, húmor og persónulega reynslu. Meðal fyrirlesara eru:
- Tim Lenton, einn fremsti loftslagssérfræðingur heims mun kynna brautryðjendarannsóknir sínar á jákvæðum vendipunktum sem geta hraðað umbreytingu í átt að markmiðum Parísarsáttmálans;
- Luukas Ilves, sérfræðingur í gervigreind og stafrænni stefnumótun og ráðgjafi stjórnvalda í Úkraínu og Eistlandi, deilir reynslu af stafrænni byltingu, í friði jafnt sem átökum;
- Birta Kristín Helgadóttir, mun meðal annars ræða hvernig íslenskar orkulausnir geta lagt sitt að mörkum til að mæta alþjóðlegum orkuskorti;
- Deniz Koca kynnir nýjar aðferðir til að tryggja matvælaöryggi í heiminum;
- Arnhildur Pálmadóttir og Benedek Regoczi munu sýna hvernig nýsköpun í hönnun og auðlindanýtingu geta ýtt undir raunverulegar breytingar innan sjávarútvegs og byggingariðnaðarins og stuðlað að sjálfbærri verðmætasköpun;
- Kasper Bjørkskov, Ragga Nagli og Stefán Pálsson munu síðan setja umbreytingu í samfélagslegt, mannlegt og sögulegt samhengi.
Að auki munu þjóðþekktir einstaklingar mætast á sviðinu í svokölluðu „Trúnó-samtali“ og ræða út fyrir boxið um þema ráðstefnunnar, meðal annars Páll Óskar, Halldóra Geirharðsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Bogi Ágústsson.
15 ára afmæli Festu og nýtt ungmennaráð kynnt á Janúarráðstefnunni
Festa, miðstöð um sjálfbærni, fagnar 15 ára afmæli í ár og af því tilefni verður fyrsta Ungmennaráð Festu kynnt til sögunnar á ráðstefnunni. Markmiðið með ungmennaráðinu er að tryggja að raddir og hugmyndir ungs fólks fái aukið vægi í að efla sjálfbærni í íslensku samfélagi og þeirri umbreytingu sem þörf er á fyrir komandi kynslóðir.
„Framtíðin er óráðin, sem þýðir að við höfum enn öll heimisins tækifæri til að móta hana eins og við viljum hafa hana. Aukið jafnrétti, aukin sjálfbærni, aukin gróska og nýsköpun, allt er þetta innan seilingar ef við bara tökum ákvörðun og setjum stefnuna,“ segir Elva Rakel og bætir við: „Umbreyting gerist ekki af sjálfu sér, hún er ákvörðun sem við verðum að taka. Í gegnum umbreytingu birtist trú okkar á að við getum skapað betra samfélag með fjölbreyttum viðskiptatækifærum og öflugri nýsköpun með hag náttúru og velsældar fyrir augum.”
Með ráðstefnunni vill Festa beina kröftum atvinnulífs, háskóla og stjórnvalda í samtaka vegferð um umbreytingu og hvetur Festa öll sem koma á Janúarráðstefnuna til að gefa sér leyfi til að taka stökkið og byrja.
„Við hér á Íslandi höfum sterka trú á því að einstaklingar geti haft áhrif, sem sést á því hvað við, sem lítil þjóð, höfum gert margt stórkostlegt. Það er þessi kraftur sem við vonumst til að leysa úr læðingi á Janúarráðstefnu Festu. Krafturinn til að ekki bara hugsa eftir nýjum brautum heldur framkvæma í takt við nýja tóna, sigla á ný mið og fagna tækifærinu sem felst í umbreytingunni,” segir Elva að lokum.
Hægt er að kynna sér dagskrá ráðstefnunnar og kaupa miða hér: https://www.sjalfbaer.is/vidburdir/janfest2026
Styrktaraðilar ráðstefnunnar eru Bláa lónið, Húsasmiðjan og Íslandshótel og þakkar Festa þeim innilega fyrir stuðninginn. Þessi fyrirtæki gera Festu kleift að bjóða uppá fjölbreytta dagskrá með erlendum gestum.












