Umbreyting er ákvörðun
Janúarráðstefna Festu 2026

Janúarráðstefna Festu er stærsti árlegi sjálfbærniviðburður á Íslandi og fer fram í Silfurbergi Hörpu föstudaginn 30. janúar 2026, undir yfirskriftinni Umbreyting er ákvörðun. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega síðan 2013 og hefur fest sig í sessi sem einn mikilvægasti og líflegasti vettvangur landsins fyrir samræður, nýja sýn og innblástur um sjálfbærni í atvinnulífi og samfélagi.
Þema ráðstefnunnar í ár, umbreyting, á sérstaklega vel við í dag þar sem geópólitísk óvissa, loftslagsbreytingar, hröð tækniþróun og samfélagslegar áskoranir kalla á raunhæfar leiðir til umbreytingar meðal fyrirtækja, stofnana og almennings. En umbreyting gerist ekki af sjálfu sér, hún felur í sér ákvörðun um að trúa á framtíðina og snertir alla þætti sjálfbærni. Á Janúarráðstefnunni leiðir Festa saman brautryðjendur, sérfræðinga og skapandi hugsuði, innlenda jafnt sem erlenda, sem deila raunverulegum umbreytingarsögum úr ólíkum geirum atvinnulífsins. Ráðstefnan dregur fram hvernig breytingar sem þegar hafa tekist vel geta orðið öðrum innblástur, hvort sem um er að ræða fyrirtæki, stofnanir eða einstaklinga.
Fjölbreytt dagskrá með alþjóðlegum og innlendum fyrirlesurum
Dagskrá ráðstefnunnar spannar fjölbreytt sjónarhorn á umbreytingu, þar á meðal loftslagsvísindi, nýsköpun í atvinnulífi, matvælaframleiðslu, tækni, félagslega sjálfbærni, menningu, sögu, húmor og persónulega reynslu.
Meðal fyrirlesara eru:
- Tim Lenton, einn fremsti loftslagssérfræðingur heims og höfundur bókarinnar Positive Tipping Points: How to Fix the Climate Crisis, mun meðal annars kynna brautryðjendarannsóknir sínar á jákvæðum vendipunktum sem geta hraðað umbreytingu í átt að markmiðum Parísarsáttmálans;
- Luukas Ilves, sérfræðingur í gervigreind og stafrænni stefnumótun og ráðgjafi stjórnvalda í Úkraínu og Eistlandi, deilir reynslu af stafrænni byltingu, í friði jafnt sem átökum. Hann hefur meðal annars hlotið friðarverðlaun Úkraínu fyrir störf sín til stuðnings Úkraínu eftir allsherjarinnrás Rússlands;
- Birta Kristín Helgadóttir, mun meðal annars ræða hvernig ískenskar orkulausnir geta lagt sitt að mörkum til að mæta alþjóðlegum orkuskorti og hraðað sjálfbærri umbreytingu;
- Deniz Koca kynnir nýjar aðferðir til að tryggja matvælaöryggi í heiminum þar sem réttar ákvarðanir á réttum stað geta knúið fram kerfisumbreytingar;
- Arnhildur Pálmadóttir og Benedek Regoczi munu sýna hvernig nýsköpun í hönnun og auðlindanýtingu geta ýtt undir raunverulegar breytingar innan sjávarútvegs og byggingariðnaðarins og stuðlað að sjálfbærri verðmætasköpun;
- Kasper Bjørkskov, Ragga Nagli og Stefán Pálsson munu síðan setja umbreytingu í samfélagslegt, mannlegt og sögulegt samhengi.
Að auki verða hin svokölluðu Trúnó-pör á sínum stað, þar sem áhrifafólk úr ólíkum áttum ræðir þema ráðstefnunnar á einlægan og opinn hátt. Þá munu íslensk fyrirtæki einnig deila reynslu sinni af félagslegri umbreytingu í verki.
EN-ROADS vinnustofa sem sérstakur kaupauki
Í fyrsta sinn býður Festa upp á gagnvirka vinnustofu með EN-ROADS loftslaghermilíkaninu sem sérstakan kaupauka fyrir þau fyrstu sem tryggja sér miða. EN-ROADS var þróað af MIT-háskóla og Climate Interactive og er notað víða um heim af leiðtogum í stjórnmálum, atvinnulífi og menntakerfi til að efla gagnreynda umræðu og ákvarðanatöku í loftslagsmálum.
Formleg dagskrá Janúarráðstefnunnar lýkur kl.16:00, en í kjölfarið geta gestir skálað og skemmt sér saman í lok dags þar sem DJ Sigrún Skafta sér um tónlistina.
Miðasala er hafin og hægt er að tryggja sér miða hér.
Styrktaraðilar ráðstefnunnar eru Íslandshótel, Húsasmiðjan og Bláa lónið og þökkum við þeim innilega fyrir stuðninginn!












