Nýr samskiptastjóri Festu
Steinunn Jakobsdóttir ráðin samskiptastjóri Festu
Festa – miðstöð um sjálfbærni hefur ráðið Steinunni Jakobsdóttur sem nýjan samskiptastjóra félagsins. Steinunn kemur til Festu frá UNICEF á Íslandi þar sem hún starfaði síðustu tíu ár, fyrst sem fjáröflunarstjóri og síðar sem kynningarstjóri. Hjá Festu mun Steinunn leiða miðlun og ásýnd samtakanna út á við og sinna samskiptum við aðildarfélög, fjölmiðla og aðra hagsmunaaðila.
Steinunn býr yfir víðtækri alþjóðlegri reynslu á sviði samskipta, málsvarastarfs og stefnumótunar. Auk starfsins hjá UNICEF á Íslandi hefur hún unnið fyrir UNICEF í Kenía, alþjóðleg barnaverndarsamtök í Kambódíu, Tælandi og Laos og fyrir fjölmiðla á Íslandi. Hún er með BA-gráðu í heimspeki og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MS-gráðu í þróunarfræðum frá University College Dublin og viðbótardiplóma í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands.
„Ég er mjög spennt fyrir nýju starfi hjá Festu. Sjálfbærni og loftslagsmál eru málefni sem snerta okkur öll og það er mér því dýrmætt að fá að vinna með öflugu teymi Festu og öllum ólíku aðildarfélögunum að jákvæðum breytingum fyrir samfélagið í dag og kynslóðir framtíðarinnar,“ segir Steinunn.
Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu segir: "Það er mikill akkur fyrir Festu að fá Steinunni til liðs við okkur með sína umfangsmiklu reynslu og verðmætu hæfni. Við hlökkum mikið til að þróa ásýnd og miðlun Festu áfram með henni."









