Sjálfbærni sem kjarni stjórnarstarfs

Málþing Festu fyrir stjórnir og framkvæmdastjórnir
Það var frábær mæting á annað málþing Festu fyrir stjórnir og framkvæmdastjórnir aðildarfélaga sem fór fram á Grand Hótel á föstudag undir yfirskriftinni „Ábyrgð og hlutverk stjórna í sviptivindum samtímans”. Málþingið leiddi saman stjórnarfólk úr fjölbreyttum atvinnugreinum þar sem við ræddum þær áhættur og tækifæri sem munu móta starfsemi stjórna á næstu árum þegar geopólitísk óvissa, loftslagsbreytingar, hröð tækniþróun og samfélagslegar áskoranir móta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Í erindum og pallborðsumræðum kom skýrt fram að sjálfbærni er kjarni stefnumótunar fyrirtækja og að öflug áhættustýring og ákvarðanataka krefst bæði ímyndunarafls og aðlögunarhæfni.
Nýjar áskoranir gera nýjar kröfur til stjórna
Fundarstjóri dagsins, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, setti tóninn í erindi sínu þar sem hún fjallaði um mikilvægi þess að stjórnir lyfti sér upp og horfi á stóru myndina til þess að geta betur tekið ákvarðanir og brugðist við ófyrirséðum áhættum. Hún minnti á að stjórnir verði að horfa á sjálfbærni í víðu samhengi þar sem hún skapar langtímavirði fyrir fyrirtæki sem og komandi kynslóðir.
Erlendu gestir málþingsins, þær Melanie Vezjak og Christine Nolasco frá CDP (áður Carbon Disclousure Project), kynntu niðurstöður nýjustu greininga á stöðu loftslags- og umhverfismála meðal stærstu fyrirtækja heims svokallað Corporate Health Check. Þær bentu á að aðgerðarleysi í loftslagsmálum gæti dregið úr vergri landsframleiðslu heimsins um 18% fyrir árið 2050 og sýndu hvernig fyrirtæki geti samþætt sjálfbærni inn í viðskiptalíkön sín til að skapa bæði stöðugleika og ný tækifæri til verðmætasköpunar.
Að bregðast við áhættum í íslenskum raunveruleika
Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku, fjallaði í erindi sínu um praktísk ráð gegn óhugsandi áhættum. Hafsteinn lagði áherslu á að geópólitískar ógnir hefðu áhrif á íslensk fyrirtæki hraðar en áður og ítrekaði að besta vörnin væri öflug áhættustýring þar sem reynir á ímyndunaraflið. Stjórnir þyrftu með öðrum orðum að læra að hugsa út fyrir kassann til að geta brugðist hratt við nánast óhugsandi ytri áhættum.
Hildur Einarsdóttir, forstjóri Advania, fjallaði um áhrif gervigreindar og tæknilausna á ákvarðanatöku fyrirtækja og lýsti því hvernig tækniframfarir og alþjóðlegar áskoranir móta nú umhverfi fyrirtækja meira en nokkru sinni fyrr. Hildur lagði áherslu á að það væri mikilvægt að standa vörð um málaflokkana sem falla undir sjálfbærni og að tækifæri Íslands til að nýta tækniþróunina til að styrkja samfélagslega innviði væri einstök, ef rétt væri haldið á spilunum.
Aðalsteinn Jónsson frá Cert-is lokaði erindahlutanum með yfirferð um helstu netöryggisógnir sem íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir. Hann lagði áherslu á að gera megi ráð fyrir að það verði áframhaldandi vöxtur netárása þar sem skipulagðir hópar væru útbreiddasta ógnin og að stjórnir þyrftu að nálgast netöryggi sem hluta af heildarstefnu fyrirtækisins.
Í lok málþingsins tóku fjórir reyndir stjórnendur þátt í líflegu pallborði. Í umræðunum kom meðal annars fram mikilvægi þess að stjórnir séu vel undirbúnar undir fjölbreyttar sviðsmyndir og að þær viðhaldi stöðugri aðlögun að síbreytilegu alþjóðlegu rekstrarumhverfi. Þá lögðu þau einnig mikla áherslu á mikilvægi þess að fyrirtæki sjá fyrir þau tækifæri sem liggja í sjálfbærni þegar kemur að alþjóðlegu samkeppnisforskoti. Í pallborði voru Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF og stjórnarkona í Heimum, og Kristján Davíðsson, stjórnarformaður Brim og stjórnarmaður hjá Landsbankanum. Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo og stjórnarmaður Festu, stýrði pallborðsumræðum.
Málþingið undirstrikaði skýrt að stjórnir verða að rýna í áhættur samtímans með opnum hug, sterkri framtíðarsýn og frjóu ímyndunarafli. Ný tækni, alþjóðlegar áskoranir og auknar kröfur samfélagsins kalla á öfluga og ábyrga forystu á sama tíma og tækifærin sem felast í breytingunum geta verið gríðarleg, fyrir fyrirtæki, samfélagið og komandi kynslóðir.
Festa þakkar öllum þátttakendum fyrir frábæran dag og hlakkar til áframhaldandi samstarfs um að efla ábyrgð og hlutverk stjórna í síbreytilegum heimi.
Myndir: Ernir Eyjólfsson



















