Ráðherra og forstjórar taka höndum saman til að draga úr hlýnun jarðar

Festa Miðstöð um sjálfbærni • 16. október 2025

Gagnvirk vinnustofa Festu með EN-ROADS loftslagslíkaninu

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og hópur forstjóra stærstu fyrirtækja landsins voru meðal þátttakenda í gagnvirkri vinnustofu Festu, miðstöðvar um sjálfbærni, til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun á næstu áratugum. Á vinnustofunni var notast við EN-ROADS loftslaghermilíkanið sem var þróað af MIT-háskóla og Climate Interactive. Forstjórarnir skipa hópinn Loftslagsleiðtogar Festu sem er hópur forstjóra fyrirtækja sem hafa sett sér metnaðarfull og markviss markmið þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

 

Verkefni hópsins var að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar nái 3,3 gráðum árið 2100, sem er sú þróun sem spáð er ef ekkert breytist. Þátttakendur tóku virkan þátt í greiningu og ákvarðanatöku með aðstoð EN-ROADS mælaborðsins og sáu í rauntíma hvernig ákvarðanir þeirra höfðu áhrif á loftslagsmarkmið. Með samvinnu, samningum og samþættingu aðgerða tókst ráðherra og forstjórunum að draga úr losun nægilega mikið til að lækka hlýnunina niður í 1,9 gráður. 

 

„En-ROADS einfaldar flókin loftslagsvísindi. Þátttakendur geta séð með eigin augum hvernig aðgerðir, eins og orkuskipti, kolefnisgjöld, skógrækt og förgun kolefnis hafa samverkandi áhrif á hitastig jarðar. Það sem gerir En-ROADS einstakt er hvernig það tengir vísindi og stefnumótun á skýran, aðgengilegan og gagnvirkan hátt,” segir Ágústa Þóra Jónsdóttir, sem ásamt Aðalsteini Leifssyni leiddi vinnustofuna. Ágústa og Aðalsteinn eru fyrstu EN-ROADS sendiherrar hér á landi.  

 

Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, var meðal þeirra Loftslagsleiðtoga sem tóku þátt í vinnustofunni og var ánægð með æfinguna:   

 

„Til að ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum og orkuskiptum þurfum við að einblína á hagnýtar lausnir sem hafa áhrif strax í dag. Fyrirtæki samanstanda af fólkinu í landinu — við berum ábyrgð og getum verið hreyfiafl breytinga en skýr stefna og fyrirsjáanleiki frá stjórnvöldum er jafnframt forsenda þess að fyrirtæki geti fjárfest af krafti og tekið stærri skref í átt að samdrætti í losun. Þess vegna var það mikilvæg æfing, samtal og samstaða sem átti sér stað hér í dag milli atvinnulífs og stjórnvalda, sem gaf góða tilfinningu fyrir samhengi hlutanna í þessu kapphlaupi við tímann um að halda hlýnun jarðar í

skefjum. Við í Festi vonum að það leiði til raunverulegra aðgerða,“  segir Ásta.   

 

Festa, miðstöð um sjálfbærni, stendur fyrir fjölda viðburða og vinnustofa á hverju ári og mun halda áfram að efla samtal milli atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál. 

 

„Við hjá Festu þökkum öllum þátttakendum fyrir öflugt samtal og virka þátttöku í vinnustofunni. Við erum flest fullviss um að ef við værum einráð í smá tíma og gætum hreyft við öllum breytum þá gætum við leyst loftslagsvandann. EN-ROADS líkanið sýndi okkur að enginn leysir þessa áskorun eins sína liðs og engin ein lausn kemur okkur alla leið í mark. Við hvetjum því fleiri til að kynna sér þetta gagnlega verkfæri og prófa sig áfram,“ segir Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu að lokum. 

 

EN-ROADS hermilíkanið hefur verið notað víða um heim af leiðtogum í stjórnmálum, viðskiptalífi og menntakerfi til að efla gagnreynda umræðu og ákvarðanatöku í loftslagsmálum. Hermilíkanið er öllum opið á https://en-roads.climateinteractive.org


6. ágúst 2025
Vertu rödd sjálfbærni á Íslandi
8. apríl 2025
Forstjórar í verkefninu Loftslagsleiðtogar hittust í þriðja sinn föstudaginn 4. apríl. Í þetta sinn var rætt um kolefnismarkaði og -einingar, ásamt því stóra verkefni atvinnulífs og stjórnvalda að draga úr losun svo Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar, en Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr samfélagslosun um 29% fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Á fundinum fórum við yfir ýmis tæknileg atriði með sérfræðingum, í þetta sinn þeim Rafni Helgasyni frá atvinnuvegaráðuneytinu, Helgu Barðadóttur frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, Rakel Evu Sævarsdóttur frá Trail Sustainability og Guðmundi Sigurbergssyni frá International Carbon Registry. Verkefnið, sem dregur innblástur frá svipuðum verkefnum víðsvegar um heiminn (Climate CEOs), leiðir saman forstjóra frá aðildarfélögum Festu til að bæði vinna að metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum og hvetja stjórnvöld og önnur fyrirtæki til aðgerða. Í september 2023 skrifuðu níu forstjórar eða staðgenglar þeirra undir stefnuyfirlýsingu verkefnisins og á árinu 2024 var unnið að því að stækka hóp loftslagsleiðtoganna og skerpa á markmiðum þeirra. Alls eru 17 forstjórar í verkefninu í dag. Það vantar ekki kraftinn frá íslensku atvinnulífi þegar kemur að vilja og metnaði í loftslagsmálum - þessu gríðarlega mikilvæga verkefni sem þarfnast samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda ásamt stuðningi frá samfélaginu og fjárfestum.
28. mars 2025
Ný stjórn og ársskýrsla
Eftir Festa Miðstöð um sjálfbærni 27. mars 2025
Fréttabréf Festu í febrúar
7. mars 2025
Allt um Janúarráðstefnuna
Eftir Sahara Web 12. nóvember 2023
Lesa n ánar hér: https://www.sjalfbaer.is/malthing-stjornir